Dreifkjörnungar

(Endurbeint frá Dreifkjörnungur)

Dreifkjörnungar (latína: Prokaryota; úr grísku πρό pro „fyrir“, og κάρυον karyon „kjarni“) nefnast þær lífverur sem ekki hafa frumukjarna. Hugtakið nær yfir flokkunarfræðilegu lénin gerla (Bacteria) og fyrnur (Archaea). Þriðja lénið, heilkjörnungar (Eukaryota), eru allar lífverur með frumukjarna. Í eldra tveggja velda kerfi Édouard Chatton voru allir dreifkjörnungar hafðir í sama veldi, en nú er algengt að gera skýran greinarmun á gerlum og fyrnum.

Skýringarmynd sem sýnir dreifkjörnung með svipu (flagellum) og gerilhár (pili).

Dreifkjörnungar þróuðust á undan heilkjörnungum. Þeir eru ekki með hvatbera eða önnur frumulíffæri sem einkenna heilkjörnunga. Allir dreifkjörnungar eru einfruma, en sumar tegundir, eins og blágerlar, mynda þyrpingar sem haldast saman í líffilmu og mynda stundum örveruþekjur í landslagi. Dreifkjörnungar fjölga sér með kynlausri æxlun með tvískiptingu og geta oft skipst á erfðaefni með hliðrænni genatilfærslu.

Rannsóknir á sviði sameindaþróunarfræði hafa gefið innsýn í þróunarleg tengsl þriggja léna lífvera. Aðgreiningin á milli dreifkjörnunga og heilkjörnunga endurspeglar tvær gerólíkar aðferðir við innra skipulag frumunnar. Aðeins heilkjörnungar hafa kjarna hjúpaðan kjarnahimnu sem inniheldur erfðaefni frumunnar, auk annarra hjúpaðra frumulíffæra eins og hvatbera. Í seinni tíð hefur aðalskiptingin verið á milli gerla og fyrna, þar sem heilkjörnungar eiga margt sameiginlegt með fyrnum og gætu því talist af sömu þróunarfræðilegu grein og þær.[1]

Munur á dreifkjarnafrumum og heilkjarnafrumum

breyta

Heilkjarnafrumur hafa frumukjarna sem er umlukinn kjarnahimnu og geymir erfðaefni frumunnar. Utan kjarnans er umfrymið þar sem mikið af efnaskiptum frumunnar fer fram og þar eru prótín smíðuð eftir forskrift RNA-afrita af genum kjarnans. Í dreifkjarnafrumum, þ.e. raunbakteríum og fornbakteríum, eru hins vegar engin skil milli erfðaefnis og umfrymis. Í umfrymi heilkjarnafrumna eru frumulíffæri sem óþekkt eru í dreifkjörnungum. Næstum því allir heilkjörnungar hafa hvatbera, sem eru miðstöðvar öndunar, og plöntufrumur hafa grænukorn að auki. Bæði þessi frumulíffæri hafa litlar DNA-sameindir enda er talið að þau séu bakteríur að uppruna.

Tilvísanir

breyta
  1. Cavalier-Smith T (mars 2002). „The phagotrophic origin of eukaryotes and phylogenetic classification of Protozoa“. International Journal of Systematic and Evolutionary Microbiology. 52 (Pt 2): 297–354. doi:10.1099/00207713-52-2-297. PMID 11931142. Afrit af upprunalegu geymt þann 29 júlí 2017. Sótt 21. mars 2019.
   Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.