Köngull
Köngull (fræðiheiti strobilus, ft. strobili) er æxlunarfæri berfrævinga. Könglar eru ekki blóm heldur ummyndaðir stönglar eða sprotar án blómhlífarblaða. Í könglum sitja karl- og kvenkynshirslur saman í axleitri skipan á stuttum legg. Á furu vaxa bæði karlkönglar og kvenkönglar. Einir (Juniperus communis) er tvíbýlisplanta og eru þá sérstakar karl- og kvenplöntur. Í karlkönglum sem eru svipaðir í flestum barrtrjám þroskast frjókorn en karlkönglarnir visna fljótt eftir að frjókornin hafa fokið burtu.
![](http://up.wiki.x.io/wikipedia/commons/thumb/1/1d/Pinus_coulteri_MHNT_Cone.jpg/220px-Pinus_coulteri_MHNT_Cone.jpg)
![](http://up.wiki.x.io/wikipedia/commons/thumb/3/3e/ConiferCone.jpg/220px-ConiferCone.jpg)
Í kvenköngli eru tvenns konar hreistursblöð og er neðst ummyndað laufblað (þekjuhreistur) en ofan á því ummyndaður sproti sem er hreisturskennt fræblað (köngulhreistur). Endi fræblaðsins er oft þykkvaxinn og nefnist garður (apohysis) en á honum er oft kúla (umbo) eða broddur (spinosus). Oft eru hreisturblöðin (þekjuhreistur og köngulhreistur) samvaxin.