Langanes í Arnarfirði

Langanes er mikill skagi sem skiptir skiptir Arnarfirði í tvo hluta. Norðan við er Dynjandisvogur og Borgarfjörður og sunnan við eru Suðurfirðirnir: Bíldudalsvogur, Fossfjörður, Reykjarfjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður. Geirþjófsfjörður er fjörðurinn nefndur sem liggur sunnan við Langanes. Nafnið Langanes er gamalt[1] en á fyrri tíð var nesið stundum nefnt Sauðanes og fremsti hluti þess Arnarnes.[2]

Séð í austur inn Arnarfjörð, Dynjandi fyrir miðri mynd

Vegalengd frá Dynjanda, innst í Dynjandisvogi, út að Langanestá er um 18 km. Allmargir bæir voru á norðurströnd Langaness þó flestir séu nú farnir í eyði. Innst er Dynjandi, næsti bær var Ós. Í Mosdal er meira undirlendi en annars staðar víðast í Arnarfirði enda voru hér löngum fimm bújarðir og er Laugaból yst þeirra. Kirkjuból er önnur af tveimur stærstu jörðum í Mosdal. Á Kirkjubóli var á öldum áður bænhús eða hálfkirkja. Kirkjuból er eina jörðin í Mosdal sem átti hvergi land að sjó. Utan við Kirkjuból var jörðin Skógar. Horn í Mosdal var önnur tveggja stærstu jarðanna í dalnum. Í fjallinu upp af gamla bæjarstæðinu er Hornshvilft. Vottar þar fyrir tóft og var það að sögn rústir af fronu hofi. Utan við Skarðanúp í landi Laugabóls kemur Hokinsdalur, í dalnum er bær samnefndur honum. Nálægt hálftíma gangur er frá sjó að bænum. Sunnan við Langanestá voru þrír bæir, Steinanes, Krosseyri og Langibotn innst í Geirþjófsfirði.

Selveiðar

breyta

Á fyrri hluta 19. aldar og fram yfir 1870 var mikið af vöðusel skutlað á hverjum vetri á Arnarfirði. Vöðuselurinn kom oftast í desember inn á fjörðinn og þá í stórum hópum. Hófust veiðarnar þá þegar og stóðu oft fram undir lok febrúar eða upp undir þrjá mánuði. Þá hurfu urturnar á braut en brimlana gátu menn stundum veitt fram undir sumarmál. Um 1870 voru selabátar gerðir út frá flestum bæjum í norðanverðum Arnarfirði og má ætla að svo hafi lengi verið. Þrír menn voru á hverjum bát, skutlari og tveir ræðarar. Selurinn var skutlaður og við hann föst löng lína sem gefin var út þegar selurinn rauk af stað. Var hann síðan dreginn að bátnum. Við borðið var hann rotaður, skorinn á háls og því næst innbyrtur. Meðalselur gaf af sér um 60 kíló af spiki og var aflanum skipt í fjóra staði. Nokkuð af sel var selt í beitu, einkum kóparnir. Annars var selspikið brætt var það brætt í stórum pottum sem tóku sumir fimm til tíu tunnur. Sellýsi var einnig notað heima á bæjunum sem viðbit, blandað annarri feiti. Selskinn voru eingöngu notuð heima, einkum sem skæði í skó, en menn gerðu sér líka föt úr þeim. Um 1875 hættu selavöðurnar að koma á Arnarfjörð og féllu þessar veiðar þá niður.[3]

Langanesviti í Arnarfirði

breyta

Vitinn stendur yst á Langanestá og er auðséður þótt smár sé vegna gula litarins. Áður en vitinn var málaður gulur var hann húðaður með ljósu kvarsi. Langanesvitinn var byggður árið 1949 og er þessi steinsteypti smáviti, sem er aðeins 4,8 m að hæð, í hópi brúarvitanna þar sem ljóshúsið er innbyggt í vitahúsið. Axel Sveinsson verkfræðingur hannaði vitann. Gasljós var í vitanum frá byggingu hans fram til 1993 en þá var hann rafvæddur með sólarorku.

Tilvísanir

breyta
  1. Íslendingabók – Landnámabók: Íslenzk fornrit I, Útgefandi: HIDISLEN2, ISBN: 9789979893004
  2. Ólafur Lárusson, Sóknalýsingar Vestfjarða. II, Útgefandi Samband vestfirzkra átthagafélaga, Reykjavík, 1952.
  3. Gils Guðmundsson, Frá ystu Nesjum vestfirskir sagnaþættir VI, bls 16-19. Ísafoldarprentsmiðja HF, 1953

Tenglar

breyta