Nasistakveðja
Nasistakveðja eða Hitlerskveðja er kveðja sem felst í því að rétta fram hægri handlegginn og láta höndina snúa niður með útrétta fingur. Kveðjan byggir á svokallaðri „rómverskri kveðju“, sem var eitt af einkennismerkjum ítalskra fasista. Hún var síðan tekin upp af Nasistaflokki Adolfs Hitler í Þýskalandi og varð eftir það einkum bendluð við nasisma. Í Þýskalandi nasismans frá 1933 til 1945 sagði fólk jafnan Heil Hitler (ísl. „Heill sé Hitler)“ þegar það fór með kveðjuna. Í Þýskalandi heilsaði fólk stundum jafnframt að sið nasista með beygðum handlegg fremur en útréttum, þar á meðal Hitler sjálfur.
![](http://up.wiki.x.io/wikipedia/commons/thumb/0/03/Bundesarchiv_Bild_147-0510%2C_Berlin%2C_Lustgarten%2C_Kundgebung_der_HJ.jpg/220px-Bundesarchiv_Bild_147-0510%2C_Berlin%2C_Lustgarten%2C_Kundgebung_der_HJ.jpg)
Kveðjan er enn notuð af sumum nýnasistahópum og nýfasistum á Ítalíu.
Uppruni
breytaNasistakveðjan er byggð á svokallaðri „rómverskri kveðju“,[1] sem komst í tísku í byrjun 20. aldar, sér í lagi í kvikmyndum.[2] Ítalska þögla myndin Cabiria frá árinu 1914, sem var ein fyrsta sandalamynd kvikmyndasögunnar, átti þátt í að koma af stað þeirri hugmynd að kveðjan ætti rætur að rekja til Rómaveldis til forna (þótt ekkert bendi til þess að Rómverjar hafi notað hana í raun). Handritshöfundur myndarinnar, þjóðskáldið Gabriele D'Annunzio, sem er talinn einn af forverum fasista, átti síðar eftir að innleiða kveðjuna meðal fylgjenda sinna þegar hann stóð fyrir hernámi í Fiume frá 1919 til 1920.
Notkun
breytaFylgismenn Gabriele D'Annunzio tóku upp á því að nota hina svokölluðu rómversku kveðju sín á milli eftir að þeir hertóku borgina Fiume á árunum 1919 til 1920 og innleiddu þar nokkurs konar frum-fasistastjórn. Kveðjan var síðan tekin upp af Fasistaflokki Benito Mussolini og síðan af mörgum evrópskum fasistahreyfingum, meðal annars spænskum Falangistum, Járnverðinum í Rúmeníu og Nasistaflokknum í Þýskalandi.
Ítalskir fasistar fóru að nota kveðjuna einhvern tímann í kringum 1920. Óljóst er hví þeir tóku hana upp en líklega var ætlunin að skapa hugrenningar til Rómaveldis. Einnig er hugsanlegt að kveðjan hafi átt að vera virðingarvottur á milli hermanna og yfirmanna þeirra.
Sagt er að á Sumarólympíuleikunum 1936 í Berlín hafi fulltrúar Frakka uppskorið mikið lófaklapp frá þýsku áhorfendunum á leikvanginum þegar þeir fóru með svokallaða ólympíska kveðju, því áhorfendurnir töldu þetta vera nasistakveðju og þar með lofgjörð til foringjans (Hitlers).[3]
Á tíma Þriðja ríkisins í Þýskalandi varð nasistakveðjan, ásamt upphrópuninni Heil Hitler, ein helsta birtingarmynd leiðtogadýrkunarinnar á Adolf Hitler. Nasískir sagnfræðingar útskýrðu hana sem svo að konungar á miðöldum hefðu notað svipaðar kveðjur.[4]
Kveðja fasista var örlítið frábrugðin kveðju þýskra nasista. Hjá ítölskum fasistum og spænskum falangistum var hendinni lyft hærra og þumlinum var beint frá hinum fingrunum.
Frá árinu 1938 reyndi stjórn Mussolini, með takmörkuðum árangri, að þröngva fasistakveðjunni upp á óbreytta borgara með því að setja lög sem skylduðu fólk til að nota hana í stað handabands.[5]
Í stjórnartíð Francisco Franco á Spáni var kveðjan í fyrstu notuð sem frankóistakveðja af stuðningsmönnum stjórnarinnar, sér í lagi úr hreyfingu falangista, en féll smám saman úr tísku.
Á tíma Vichy-stjórnarinnar í Frakklandi notuðu meðlimir í frönskum sjálfboðaherdeildum sem börðust með Þjóðverjum einnig kveðjuna.[6] Franskir samverkamenn og leppstjórnendur þýska hernámsliðsins notuðu einnig kveðjuna á opinberum vettvangi við ýmis tilefni.[7] Kveðjan var einnig notuð af fasísku ungliðahreyfingunni Chantiers de la jeunesse française (CJF).[8]
Í Þýskalandi var litið á Hitlerskveðjuna sem sérstaka þýska kveðju og því var Gyðingum bannað með lögum að nota hana í sumum borgum, til dæmis í Gotha árið 1932:[9]
Nokkrar fyrirspurnir hafa borist um það hvort Gyðingum beri einnig að fara með þýsku kveðjuna. Til að gera út um allan misskilning framvegis staðfestum við hér með að þýska kveðjan er kveðja Þjóðverja, sem Gyðingum ber ekki einungis ekki að fara með, heldur er þess ekki óskað af þeim. Almenningur er beðinn um að láta Gyðinga í friði sem ekki fara með þýsku kveðjuna. |
Þýski herinn neitaði að taka upp nasistakveðjuna.[10] Frá 19. september 1933 var þess aðeins krafist af hermönnum að þeir kveddu að sið nasista þegar þýski þjóðsöngurinn var sunginn og á borgaralegum athöfnum og fundum (til dæmis með ráðherrum ríkisstjórnarinnar).[10] Þrátt fyrir þetta voru eldri hermannskveðjur aðeins leyfðar samkvæmt starfsreglum hersins ef sá sem fór með hana var með rétt höfuðfat samkvæmt reglum. Nasistakveðjan var því í framkvæmd notuð við öll tilefni af hermönnum þegar þeir voru berhöfðaðir.[11] Hermönnum var gert skylt með lögum að nota nasistakveðjuna þann 24. apríl 1944, fáeinum dögum eftir 20. júlí-tilræðið gegn Hitler.[12][13]
Uppruni upphrópunarinnar Heil Hitler
breytaSamkvæmt Ian Kershaw í ævisögu hans um Hitler voru upphrópunin Heil og titillinn Führer hugarsmíð Georgs Ritter von Schönerer, ofstækisfulls Gyðingahatara frá Vín, undir lok 19. aldar. Þessi einkennisorð urðu síðar Hitler og nasistum að innblæstri.[14]
Upphrópunin Sieg Heil („Heill sé sigrinum“; Sieg þýðir sigur) fylgdi gjarnan Hitlerskveðjunni. Eftir 20. júlí-tilræðið gegn Hitler árið 1944 var hermönnum gert skylt að segja þessi orð ásamt kveðjunni við alla hernaðarviðburði.
Hugsanlegt er að upphrópunin hafi einnig verið undir áhrifum af óperunni Lohengrin eftir Richard Wagner, sem hefst á orðunum „Heill sé Hinrik konungi!“.
Ádeilur á Hitlerskveðjuna
breytaAndstæðingar nasista utan Þýskalands gerðu mjög gjarnan grín að nasistakveðjunni frá árinu 1933. Listamaðurinn John Heartfield gaf út safn ljósmynda af Hitler að heilsa alþjóðlegum fjárfestum. Í kvikmyndinni The Great Dictator eftir Charlie Chaplin lendir persónan Adenoid Hynkel (skopstæling Chaplins á Hitler) oft í vandræðum þegar hann reynir að fara með nasistakveðjuna. Einnig hefur verið deilt á nasistakveðjuna í kvikmyndunum Stalag 17, Dr. Strangelove og Papy fait de la résistance og sjónvarpsþáttunum Fawlty Towers.
Í kvikmyndinni To Be or Not to Be frá 1942 eftir Ernst Lubitsch er gert grín að nasistakveðjunni þegar leikari sem þykist vera Hitler svarar lófaklappi áhorfenda með því að segja: Heil ég sjálfur.
Bönn
breytaNasistakveðjan er bönnuð í Þýskalandi og í Austurríki samkvæmt stjórnarskrám ríkjanna. Þýskir nýnasistar nota stundum kveðjuna en breyta henni lítillega með því að lyfta fingrunum til að komast í kringum bannið.
Í Frakklandi er kveðjan sem slík ekki bönnuð, ólíkt búningum og merkjum nasista, sem eru bönnuð samkvæmt almennum hegningarlögum.[15][16][17] Kveðjan er hins vegar bönnuð á íþróttaleikvöngum í Frakklandi samkvæmt íþróttalögum.[18][19]
Á Ítalíu er fasistakveðjan enn notuð af ýmsum nýfasistasamtökum eins og Forza nuova, CasaPound og jafnvel af Bræðrum Ítalíu, núverandi stjórnarflokki landsins.[20] Scelba-lögin nr. 645 frá árinu 1952, sér í lagi 5. gr. þeirra,[21] fordæma þó notkun nasískra einkennistákna og tákna Sósíal-fasíska lýðveldisins og fasisma almennt.
Ítölsk réttarframkvæmd
breytaÞann 20. febrúar 2018 komst dómstóll í Mílanó að þeirri niðurstöðu að fasistakveðjan væri ekki refsiverð ef henni væri beitt í friðsamlegu samhengi eða í minningarathöfn. Í henni fælist aðeins tjáning tiltekinnar hugmyndafræði[22] Þessi dómur var felldur eftir mótmælaviðburð sem skipulagður var af Bræðrum Ítalíu árið 2014 þar sem tveir meðlimir CasaPound voru ákærðir fyrir að vegsama fasisma með beitingu hennar.[20] Eftir dóminn voru þeir hreinsaðir af sök.[22]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Elon Musk and the history of the 'Roman salute'“. The Conversation.
- ↑ Winckler (2009). The Roman salute: cinema, history, ideology (enska). Columbus: Ohio State University Press. ISBN 978-0-8142-0864-9..
- ↑ Leni Riefenstahl (22 júní 1938). „Les dieux du stade (Leni Riefenstahl, 1936)“. vimeo.com. Sótt 2 október 2022.
- ↑ Brockhaus Enzyklopädie
- ↑ La Storia del Ventennio : L ‘intervento in Spagna e l’alleanza con la Germania[óvirkur tengill] », úr Un Omaggio la Duce
- ↑ Rousso, Henry (1984). Petain et la fin de la collaboration: Sigmaringen, 1944-1945. 13 (franska). Bruxelles: Éditions Complexe. ISBN 978-2-87027-138-4. OCLC 434812697., diff. Paris, PUF
- ↑ « Marcel Déat à l'Arc de triomphe et au palais de Chaillot », France Actualités, 5. maí 1944, á vefsíðu INA.
- ↑ Le serment des chefs musulmans, France Actualités, 9. október 1942, á vefsíðu INA
- ↑ Úr eintaki Der Israelit frá 26. október 1933
- ↑ 10,0 10,1 Allert (2009) bls. 80–82
- ↑ Reibert redivivus, í: Der Spiegel 5/1960, bls. 35–36, (27. janúar 1960), til á netinu í vefsafni Spiegel Online (sótt: 25. mars 2013)
- ↑ Allert (2009), bls. 82
- ↑ Ullrich, Volker (2020). Hitler: Downfall: 1939-1945 (enska). Þýðing eftir Jefferson Chase. New York: Knopf. bls. 476. ISBN 978-1-101-87400-4.
- ↑ Ian Kershaw, Hitler, Flammarion, 1999 og Brigitte Hamann, Hitlers Wien. Lehrjahre eines Diktators, München, 1996.
- ↑ „Condamné pour un salut nazi lors de l'Euro de basket“. Paris Match (franska). 08/09/2015.
- ↑ „Drancy : trois mois de prison pour un salut nazi devant le mémorial du camp“. leparisien.fr. 17. september 2015. Sótt 21. september 2017.
- ↑ „Jura: prison ferme pour un salut hitlérien et un chant néo-nazi“. BFMTV (franska). 13/03/2013. Sótt 21. september 2017.
- ↑ „Un supporteur su PSG condamné pour un salut nazi“. Metronews. 5. september 2012. Sótt 14. mars 2014..
- ↑ „Guide juridique sur la prévention et la lutte contre les incivilités, les violences et les discriminations dans le sport“ (pdf). ministère des Sports. janúar 2013.
- ↑ 20,0 20,1 „Milano, tutti prosciolti per i saluti romani durante cerimonia per Ramelli di un anno fa“. Repubblica.it (ítalska). 10 júní 2015. Sótt 27 febrúar 2018.
- ↑ „Legge Scelba 645 1952 Divieto di riorganizzazione del disciolto partito fascista“. MioLegale.it (ítalska). 11 júlí 2017. Sótt 27 febrúar 2018.
- ↑ 22,0 22,1 „Saluto fascista, la Cassazione: "Non è reato se commemorativo" e conferma due assoluzioni a Milano“. Repubblica.it (ítalska). 20 febrúar 2018. Sótt 27 febrúar 2018.
Heimildir
breyta- Allert, Tilman (2009). The Hitler Salute: On the Meaning of a Gesture. Þýðing eftir Jefferson Chase. Picador. ISBN 9780312428303.