Skaði
Skaði er kona sjávarguðsins Njarðar í norrænni goðafræði og þar með stjúpmóðir Freys og Freyju. Skaði var af kyni jötna en faðir hennar var jötunninn Þjassi. Þrymheimur kallast heimkynni Skaða sem eru staðsett uppi í fjöllum og ferðast hún um á skíðum og veiðir þau dýr með boga og örvum sem á vegi hennar verða. Skaði hefur einnig verið kölluð Öndurguð eða Öndurdís.

Samkvæmt skáldskaparmálum varð hjónaband hennar og Njarðar til þegar Skaði kom til ása og ætlaði sér að hefna dauða föður síns Þjassa eftir rán Iðunnar. Guðirnir buðu henni hinsvegar í staðinn ýmsar bætur, þar á meðal að fá einn af ásunum sem eiginmann, en þeir væru huldir og hún þyrfti að dæma þá af fótunum einum saman.
Skaði leit þá á fæturna og valdi þá fallegustu og hreinustu, og hélt að þeir gætu aðeins tilheyrt Baldri. Kom þó í ljós að þeir væru fæturnir á Nirði, guði sjávar og vinds.
Hjónaband þeirra varð stormasamt, þar sem hún gat ekki sofið í Nóatúnum vegna hávaðans í hafinu og mávunum. Fluttu þau þá til Þrymheims, þar sem Njörður gat ekki fest svefn vegna ýlfurs úlfanna í fjöllunum. Þau komust að samkomulagi þar sem þau ættu 9 nætur í Nóatúni og 9 nætur í Þrymheimi. Þau skildu og giftist hún síðar Óðni og var einn af sonum þeirra Sæmingur.
