Verkakvennafélagið Framsókn
Verkakvennafélagið Framsókn var stéttarfélag kvenna í Reykjavík stofnað 25. október árið 1914.[1][2] Í Góðtemplarahúsinu hittust 68 konur úr Kvenréttindafélagi Íslands undir þeim forsendum að stofna verkakvennafélag. Á þeim fundi var Jónína Jónatansdóttir kosin formaður félagsins vegna þess að hún hafði upprunalega átt hugmyndina að stofnuninni, ásamt því að hún var ekki verkakona og átti því ekki hættu á því að missa vinnuna fyrir að vera formaður. Kveikjan að stofnuninni var aðallega hvað konur voru með lélegt kaup miðað við karlmenn og hræðilegar aðstæður á vinnustöðum kvenna.[3]
![](http://up.wiki.x.io/wikipedia/commons/thumb/f/f3/Fiskvinnslukonur_vaska_saltfisk_%C3%AD_kerjum_innanh%C3%BAss%2C_1910-1920.jpg/363px-Fiskvinnslukonur_vaska_saltfisk_%C3%AD_kerjum_innanh%C3%BAss%2C_1910-1920.jpg)
Til að ganga í félagið þurftu konur að vera yfir 16 ára og vinnuhæfar. Þá gátu þær sent upptökubeiðni til stjórnenda og borgað upptökugjaldið sem var 1 kr. Eftir þá greiðslu, var ársgjaldið 8 kr.[4] Í félagslögunum sem sett voru árið 1941 kemur fram að konur á aldrinum 60-65 ára skyldu borga helminginn af ársgjaldinu en þær sem voru eldri en 65 ára og óvinnuhæfar þyrftu ekki að borga neitt.[5]
Árið 1944 höfðu Framsóknarkonur haldið 328 félagsfundi sem þýðir að það voru um það bil 11 fundir á ári frá stofnun félagsins. Fyrsti aðalfundurinn var haldinn árið 1915 og var sóttur af 109 félagskonum en á síðasta aðalfundi fyrir útgáfu 30 ára afmælisritsins (árið 1944) voru konurnar nærri 600 sem mættu. Þetta þýðir að það var 450% hækkun í aðsókn á 30 árum.[6] Áður en Framsókn var stofnað var gerð tillaga um að stofna kvennadeild í Verkamannafélaginu Dagsbrún, en því var hafnað, m.a. vegna þess að einn fundarmannanna sagði að það væri engin ástæða til þess, þar sem konur væru aðeins gestir á vinnumarkaðnum.[7] En Framsókn hætti síðan sem sjálfstætt starfandi verkalýðsfélag árið 1998, er það sameinaðist Dagsbrún og stofnað var nýtt félag: Efling.[8]
![](http://up.wiki.x.io/wikipedia/commons/thumb/6/69/Fyrstu_fimm_formennirnir.jpg/215px-Fyrstu_fimm_formennirnir.jpg)
Stjórn
breytaÍ fyrstu stjórn félagsins sátu: Jónína Jónatansdóttir, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Karólína Siemsen, Jónína Jósefsdóttir og María Pétursdóttir.[9]
Formenn
breytaÁ 84 starfsárum voru fimm konur formenn félagsins.[10]
Formaður | Kjörin | Hætt |
---|---|---|
Jónína Jónatansdóttir | 1914 | 1935 |
Jóhanna Egilsdóttir | 1935 | 1962 |
Jónína Margrét Guðjónsdóttir | 1962 | 1974 |
Þórunn Valdimarsdóttir | 1974 | 1982 |
Ragna Bergmann | 1982 | 1998 |
Laun
breytaFyrir stofnun Framsóknar unnu konur kola-, salt-, og timburvinnu samhliða körlum en fengu aðeins 12 aura borgað á tímann á meðan karlar fengu 25 aura. Konurnar fengu sama kaup fyrir dag-, nætur-, helgar- og helgidagavinnu. Þær fengu enga matarpásu né kaffitíma og unnu í nær 16 tíma á dag.[11] Á stofnunarári félagsins voru verkakonur í Reykjavík með um 15-18 aura á tímann sem var um helmingi lægra en laun verkamanna.[12] Á fyrstu 30 starfsárum félagsins bötnuðu vinnuskilyrði verkakvennanna, launin hækkuðu upp í 1,64 krónur á tímann í dagvinnu, eftirvinna hækkaði um 50% og nætur- og helgarvinna hækkaði um 100%. Auk þess var vinnutíminn orðinn 8 tímar á dag og fengu þær fengu greiddan kaffitíma.[13]
Kauptaxti
breytaFyrstu 30 árin barðist Framsókn fyrir því að atvinnurekendur viðurkenndu þau sem verkalýðsfélag. Þá fengu verkakonur oft ekki laun í samræmi við kauptaxtann sem þær kröfðust, líkt og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. En eftir því sem leið á, er greinilegt að kröfuvald verkakvennanna hafi aukist. Þær settu kauptaxtann og með samningaviðræðum, samþykktu atvinnurekendur hann.
Ártal | Kauptaxti | Laun |
---|---|---|
1914 | 25 aurar | ca. 15 aurar |
1915-1916 | 25 - | 25 - |
1917-1918 | 40 - | 36 - |
1919 | 60 - | 55 - |
1920 | 97 - | 97 - |
1921-1924 | 80 - | 80 - |
1925 | 90 - | (óþekkt) |
1926 (26/03) | 85 - | 80 - |
1926 (haust) | (óþekkt) | 60 - |
1927-1930 | 70 - | 70 - |
1930-1936 | 80 - | 80 - |
1937 | 90 - | 90 - |
1942 | 1,40 kr. | 1,40 kr. |
Eftir árið 1942 hækkaði kauptaxtinn rækilega næstu ár. Stórt stökk varð frá árinu 1958 til 1961 er hann fór úr 9,22 kr. upp í 18,95 kr. Árið 1964 varð kauptaxtinn 30,81 kr.[15]
Félagið barðist alla tíð fyrir jafnari launum kynjanna. Árið 1961 voru ný lög samþykkt sem stuðluðu að því að verkafólk af öllum kynjum fengu sama kaup fyrir sömu vinnu, en þó ekki það sama fyrir ''jafnverðmæta vinnu''.[16] Þessi lög þurfti síðan að setja í framkvæmd, en það átti eftir að taka mörg ár.
Samstarf við önnur verkakvenna- og verkamannafélög
breytaFélög verkakvenna um allt land unnu oft saman að bættum vinnukjörum starfssystra sinna. Strax í upphafi starfrækslu Framsóknar hafði félagið samband við Verkakvennafélagið Einingu, sem var með höfuðstöðvar sínar á Akureyri. Reykvíkingarnir sendu þeim “samhygðarskeyti” og Eining svaraði með því að biðja verkakonurnar sem hyggðust vinna á Eyjafirði næsta sumar, ekki að ráða sig fyrir minna en kauptaxta Einingar. Árið 1923 var Framsókn síðan boðið á fyrsta landsfund Kvenréttindafélags Íslands, sem þær þáðu. Rétt rúmlega 20 árum síðar, gerðist félagið aðili að Kvenfélagasambandi Íslands og Bandalagi kvenna. Auk þess unnu Framsókn og Verkakvennafélagið Framtíðin úr Hafnafirði oft saman að markmiðum sínum og héldu sameiginlegar árshátíðir.[17]
Sögufrægasta verkfall Framsóknar - stundum kallað ''11 daga verkfallið'' - átti sér stað árið 1926.[18] Samningaviðræður við atvinnurekendur gengu ekki og því var leitað hjálpar annarra verkafélaga. Þeirra á meðal má nefna Framtíðina og Hvöt úr Vestmannaeyjum, en Verkamannafélagið Dagsbrún og Alþýðusamband Íslands voru áhrifamest fyrir verkfallið sjálft.[19][20] Framsókn endaði þó á því að tapa verkfallinu og atvinnurekendur lækkuðu daglaunakaupið í 80 aura, og enn frekar um haustið, en þá lækkaði það niður í 60 aura á tímann. Þetta þýddi tæpa 40% launalækkun frá árinu áður, þegar taxtinn var 97 aurar.[21]
Konurnar í Framsókn tóku einnig þátt í starfi Alþýðusambandsins þar sem formenn félagsins voru ''flest árin'' í stjórn þess, til dæmis var Jónína Jónatansdóttir einn af stofnendum sambandsins.[22] Í Alþýðuflokknum unnu þær við allar kosningar og gáfu allmikið fé til kosningastarfseminnar, þá sérstaklega fyrstu árin. Enn fremur unnu þær að útbreiðslu Alþýðublaðsins og gáfu því styrki.[23] Þannig var starf Framsóknar mjög vítt meðal verkafélaga landsins.
Tilvísanir
breyta- ↑ Gunnar Karlsson (2009). Saga Íslands X. Hið Íslenska bókmenntafélag. bls. 142-143.
- ↑ Verkakonan, 30 ára afmælisblað Verkakvennafélagsins Framsóknar. Verkakvennafélagið Framsókn. 1945.
- ↑ Erla Hulda Halldórsdóttir; Kristín Svava Tómasdóttir; Ragnheiður Kristjánsdóttir; Þorgerður H. Þorvaldsdóttir (2020). Konur sem kjósa. Aldarsaga. Sögufélag. bls. 377.
- ↑ Lög Verkakvennafélagsins Framsóknar. Verkakvennafélagið Framsókn. 1920.
- ↑ Lög Verkakvennafélagsins Framsóknar. Verkakvennafélagið Framsókn. 1941.
- ↑ Verkakonan, 30 ára afmælisblað Verkakvennafélagsins Framsóknar. Verkakvennafélagið Framsókn. 1945. bls. 16 og 17.
- ↑ Gunnar Karlsson (2009). Saga Íslands X. Hið Íslenska bókmenntafélag. bls. 142-143.
- ↑ „Um Eflingu“. Efling stéttarfélag. Sótt 10 febrúar 2025.
- ↑ Verkakvennafélagið Framsókn 75 ára. 1989. bls. 49.
- ↑ Verkakvennafélagið Framsókn 75 ára. 1989. bls. 15.
- ↑ Verkakonan, 30 ára afmælisblað Verkakvennafélagsins Framsóknar. Verkakvennafélagið Framsókn. 1945. bls. 2.
- ↑ Gunnar Karlsson (2009). Saga Íslands X. Hið Íslenska bókmenntafélag. bls. 142.
- ↑ Verkakonan, 30 ára afmælisblað Verkakvennafélagsins Framsóknar. Verkakvennafélagið Framsókn. 1945. bls. 3.
- ↑ Svava Jónsdóttir (1945). Verkakonan, 30 ára afmælisblað Verkakvennafélagsins Framsóknar. Verkakvennafélagið Framsókn. bls. 7-11.
- ↑ Verkakvennafélagið Framsókn 75 ára. Verkakvennafélagið Framsókn. 1989. bls. 67.
- ↑ Erla Hulda Halldórsdóttir; Kristín Svava Tómasdóttir; Ragnheiður Kristjánsdóttir; Þorgerður H. Þorvaldsdóttir (2020). Konur sem kjósa. Aldarsaga. Sögufélag. bls. 380.
- ↑ Verkakvennafélagið Framsókn 50 ára. Afmælisrit. Verkakvennafélagið Framsókn. 1964. bls. 65.
- ↑ Verkakonan, 30 ára afmælisblað Verkakvennafélagsins Framsóknar. Verkakvennafélagið Framsókn. 1945. bls. 8.
- ↑ Verkakvennafélagið Framsókn 50 ára. Afmælisrit. Verkakvennafélagið Framsókn. 1964. bls. 65.
- ↑ Verkakonan, 30 ára afmælisblað Verkakvennafélagsins Framsóknar. Verkakvennafélagið Framsókn. 1945. bls. 9.
- ↑ Verkakvennafélagið Framsókn 50 ára. Afmælisrit. Verkakvennafélagið Framsókn. 1964. bls. 67.
- ↑ Erla Hulda Halldórsdóttir; Kristín Svava Tómasdóttir; Ragnheiður Kristjánsdóttir; Þorgerður H. Þorvaldsdóttir (2020). Konur sem kjósa. Aldarsaga. Sögufélag. bls. 203.
- ↑ Verkakonan, 30 ára afmælisblað Verkakvennafélagsins Framsóknar. Verkakvennafélagið Framsókn. 1945. bls. 16.
Tenglar til nánari athugunar
breyta- https://www.ein.is/is/um-einingu-idju/felagid Vefsíða um Verkalýðsfélagsins Einingar og Iðju, á Akureyri.
- https://asi.is/ Vefsíða Alþýðusambands Íslands.
- https://kvenrettindafelag.is/ Vefsíða Kvenréttindafélags Íslands.
- https://www.kvenfelag.is/ Vefsíða Kvenfélagasamband Íslands.