Landbúnaður er sú grein atvinnulífsins sem snýst um að yrkja landið og rækta dýr til manneldis.[1] Landbúnaður nær líka yfir strandbúnað (til dæmis fiskeldi og dúntekju) og skógrækt. Landbúnaður var lykillinn að kyrrsetulífi manna sem aftur leiddi til þróunar siðmenningar. Ræktun nytjaplantna og húsdýra skapaði umframmagn matvæla og annarra afurða sem gerðu líf í borgum mögulegt. Minjar um söfnun korns eru til allt frá því fyrir 105.000 árum, en fyrstu ummerki um markvissa kornrækt eru um 11.500 ára gömul. Fyrir um 10.000 árum voru kindur, geitur, svín og nautgripir gerð að húsdýrum. Þróun nytjaplantna átti sér stað á minnst 11 ólíkum stöðum í heiminum. Iðnvæddur landbúnaður sem byggist á einræktun varð ríkjandi tegund landbúnaðar á 20. öld.

Veggmynd frá 15. öld f.o.t. sýnir meðal annars þreskingu, uppskeru með sigð, skógarhögg og plægingu.
Kúabúskapur heyrir undir landbúnað

Smábýli framleiða um þriðjung af matvælum heimsins (2021), en stórbýli eru ríkjandi í landbúnaði.[2] Stærsta 1% af býlum heims eru stærri en 50 hektarar og ná yfir 70% af ræktunarlandi heimsins.[2] Nær 40% af öllu ræktarlandi tilheyrir býlum sem eru yfir 1000 hektarar að stærð.[2] Sveitabæir og landbúnaður hafa mikil áhrif á samfélög og efnahagslíf í sveitum.

Hægt er að skipta landbúnaðarafurðum gróflega í matvæli, trefjar, eldsneyti og hráefni (eins og hrágúmmí). Matvælaflokkar eru korn, grænmeti, ávextir, matarolíur, kjöt, mjólk, egg og sveppir. Heimsframleiðslan í landbúnaði er nær 11 milljarðar tonna af matvælum,[3] 32 milljónir tonna af trefjum,[4] og 4 milljarðar rúmmetra af viði.[5] Um 14% af matvælaframleiðslu heimsins tapast áður en hún nær til neytenda.[6]

Nútímajarðræktarfræði, plöntukynbætur, íðefni eins og skordýraeitur og áburður, og tækniþróun hafa stóraukið uppskeru, en líka valdið miklum umhverfisáhrifum. Valræktun og nútímalegar aðferðir við kvikfjárrækt hafa líka aukið framleiðni í kjötframleiðslu, en vekja sömuleiðis upp spurningar um dýravelferð og skaðleg umhverfisáhrif. Umhverfisáskoranir sem fylgja landbúnaði eru meðal annars útblástur gróðurhúsalofttegunda, umhverfishnignun (til dæmis minni líffjölbreytni, eyðimerkurmyndun, skógeyðing, jarðvegshnignun og loftslagsbreytingar), sem geta valdið minnkandi framleiðni. Víða um heim ræktar fólk erfðabreyttar lífverur, þótt þær séu bannaðar í sumum löndum.

Saga landbúnaðar

breyta

Landbúnaður varð fyrst til við lok síðustu ísaldar og upphaf nýsteinaldar fyrir um 12 þúsund árum síðan. Talið er að menn hafi tamið hesta fyrir um 4000 árum síðan og hafi þeir verið notaðir til dráttar og reiðar. Áður hafði maðurinn tamið nautgripi og sauðfé til að hafa sem húsdýr.

Tilvísanir

breyta
  1. The State of Food and Agriculture 2021. Making agrifood systems more resilient to shocks and stresses. Rome: Food and Agriculture Organization of the United Nations. 2021. doi:10.4060/cb4476en. ISBN 978-92-5-134329-6. S2CID 244548456. Afrit af uppruna á 13. apríl 2023. Sótt 3. febrúar 2023.
  2. 2,0 2,1 2,2 Lowder, Sarah K.; Sánchez, Marco V.; Bertini, Raffaele (1. júní 2021). „Which farms feed the world and has farmland become more concentrated?“. World Development (enska). 142: 105455. doi:10.1016/j.worlddev.2021.105455. ISSN 0305-750X. S2CID 233553897.
  3. „FAOSTAT. New Food Balance Sheets“. Food and Agriculture Organization. Afrit af uppruna á 4. janúar 2024. Sótt 12. júlí 2021.
  4. „Discover Natural Fibres Initiative – DNFI.org“. dnfi.org. Afrit af uppruna á 10. apríl 2023. Sótt 3. febrúar 2023.
  5. „FAOSTAT. Forestry Production and Trade“. Food and Agriculture Organization. Afrit af uppruna á 4. janúar 2024. Sótt 12. júlí 2021.
  6. In Brief: The State of Food and Agriculture 2019. Moving forward on food loss and waste reduction. Rome: Food and Agriculture Organization. 2023. doi:10.4060/cc4140en. ISBN 978-92-5-137588-4. Afrit af uppruna á 27. september 2023. Sótt 4. janúar 2024.

Tengt efni

breyta
   Þessi landbúnaðargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.