Niðurlönd (hollenska: de Nederlanden eða de Lage Landen, franska: les Pays-Bas) er heiti sem notað var áður á þau ríki sem liggja á láglendinu umhverfis árósa ánna Rínar, Scheld og Meuse þar sem þær renna út í Norðursjó. Svæðið samsvarar að mestu leyti Hollandi, Belgíu og Lúxemborg, en algengara er að nota hugtakið Benelúxlöndin um þau saman.

Mynd af niðurlöndum tekin af gervihnetti NASA

Sögulega hefur hugtakið Niðurlönd verið notað um ýmis ríki á þessu svæði, svo sem Spænsku Niðurlönd (1581-1713) og Konungsríkið Niðurlönd (1815-1830). Í ensku er hugtakið the Netherlands og í þýsku die Niederlande notað sem heiti á Hollandi, þar sem hið eiginlega Holland er í raun aðeins tvær sýslur í Hollandi. Í hollensku er hins vegar notað eintöluformið Nederland yfir Holland en fleirtöluformið de Nederlanden yfir hin sögulegu Niðurlönd. Í frönsku er heitið les Pays-Bas notað yfir bæði Holland og Niðurlöndin.