Þeba (Egyptalandi)
Þeba (gríska: Θῆβαι, Thēbai; fornegypska: niwt „borgin“ eða niwt-rst „borgin í suðri“ eða w3st) sem Hómer kallar Þebu hinna hundrað hliða, var borg í Egyptalandi hinu forna sem stóð á austurbakka Nílar um 800 kílómetra frá Miðjarðarhafinu. Þeba var höfuðborg héraðsins Úaset sem var fjórða umdæmi Efra Egyptalands. Þeba var höfuðborg alls landsins á tímum elleftu konungsættarinnar og mestan hluta átjándu konungsættarinnar þótt hin eiginlega stjórnsýslumiðstöð hafi líklega verið í Memfis. Bæirnir Lúxor og Karnak standa við jaðar borgarinnar.
![](http://up.wiki.x.io/wikipedia/commons/thumb/8/8e/Luxor%2C_Luxor_Temple%2C_south_west_view_2%2C_Egypt%2C_Oct_2004.jpg/220px-Luxor%2C_Luxor_Temple%2C_south_west_view_2%2C_Egypt%2C_Oct_2004.jpg)