Rússneska keisaradæmið
Rússneska keisaradæmið (rússneska: Царство Русское, umrit. Tsarstvo Rússkoje; frá 1721 Россійская Имперія, umrit. Rossíjskaja Ímperíja) var stórveldi í Evrópu og Asíu sem varð til þegar Ívan grimmi stórfursti af Moskvu ákvað, árið 1547, að taka sér titilinn царь tsar, sem merkir keisari. Ívan var fastur í sessi, hafði mikil völd yfir bojurunum og jók verulega við ríki sitt með því að leggja undir sig tatararíkin Kazan og Astrakhan. Þótt faðir hans og afi hefðu báðir notað titilinn á undan honum var Ívan sá fyrsti sem var formlega krýndur tsar eða „keisari“, en þeir langfeðgar litu á Moskvu sem arftaka Konstantínópel eftir fall Austrómverska keisaradæmisins og sjálfa sig því sem arftaka rómversku keisaranna.
![](http://up.wiki.x.io/wikipedia/commons/thumb/0/0a/Ivans_ivory_throne.jpg/220px-Ivans_ivory_throne.jpg)
Eftir að Pétur mikli hafði gert ríkið að einveldi og lagt niður stofnanir bojarasamfélagsins ákvað hann síðan árið 1721 að taka upp evrópska heitið Россійская Имперія Rossíjskaja Ímperíja.